Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 573  —  432. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um kæfisvefnsrannsóknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri.


     1.      Hvað er hægt að framkvæma margar kæfisvefnsrannsóknir í senn á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) annars vegar og Landspítala hins vegar og hvað var greitt fyrir margar slíkar rannsóknir á ári hverju síðastliðin fimm ár á hvorri stofnun fyrir sig?
    Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) er með þrjú tæki til að framkvæma kæfisvefnsrannsóknir og með því að fullnýta tækið þá er hægt að framkvæma 15 rannsóknir á viku. Sjúkratryggingar eru með samning við SAk um 200 kæfisvefnsrannsóknir á ári en sjúkrahúsið áætlar að raunhæft sé að framkvæma um 600 rannsóknir á ári.
    Á Landspítala, eða undir umsjón hans, er unnt að gera allt að 18 kæfisvefnsskimanir á dag, þar af geta allt að 6 skimanir farið fram utan Landspítala á einhverri samstarfsstofnana spítalans (sjá svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar). Að auki er unnt að gera 4–5 svefnrannsóknir með heilariti (PSG-mælingar) á dag, sem eru umfangsmeiri og ítarlegri rannsóknir sem einungis er hægt að gera á Landspítala.
     Fjölda kæfisvefnsskimana og PSG-mælinga sem gerður var á ári hverju sl. 5 ár á Landspítala má sjá í eftirfarandi töflu:

Tegund 2018 2019 2020 2021 2022
Kæfisvefnsskimun 1.330 1551 1.322 1.573 1.501
PSG rannsókn (svefnrannsókn m. heilriti) 130 137 121 388 509
Alls 1.460 1.688 1.443 1.961 2.010

    Fjölda kæfisvefnsrannsókna sem gerðar voru á ári hverju sl. 5 ár á Sjúkrahúsinu á Akureyri má sjá í eftirfarandi töflu:

2018 2019 2020 2021 2022
291 308 280 330 404

     2.      Hvaða stofnanir framkvæma kæfisvefnsrannsóknir?
    Þær stofnanir og/eða þeir aðilar sem framkvæma kæfisvefnsrannsóknir eru:
          Landspítali
          Sjúkrahúsið á Akureyri
    Landspítali hefur síðan eftirlit með kæfisvefnsskimunum sem framkvæmdar eru á eftirfarandi stofnunum:
          Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík
          Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði
          Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi
          Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (Mosfellsbæ, Hamraborg Kóp., Efra-Breiðholti og Seltjarnarnesi)
          Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmanneyjum
          Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Höfn í Hornafirði
          Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum
          Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað
    Aðrar opinberar stofnanir sem framkvæma kæfisvefnsskimanir og mælingar eru:
          Sjúkrahúsið á Akureyri
          Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi
    Þar fyrir utan eru framkvæmdar kæfisvefnsskimanir á eftirtöldum stöðum:
          Læknasetrinu í Reykjavík
          Reykjalundi í Mosfellsbæ
          Hjartamiðstöðinni í Reykjavík
    Þess má og geta að Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands eru báðir með rannsóknarverkefni yfirstandandi sem tengjast svefnrannsóknum og kæfisvefni þar sem gerðar eru kæfisvefnsskimanir og PSG-mælingar í tengslum við kæfisvefn.

     3.      Hversu margir einstaklingar fara á Landspítala af upptökusvæði SAk í kæfisvefnsrannsóknir?
    Í eftirfarandi töflu má sjá fjölda einstaklinga frá póstnúmerum 5- og 600 (Norðurland) sem hafa komið í kæfisvefnsskimun og/eða PSG-mælingu á Landspítala á ári sl. 5 ár.

Fjöldi rannsókna alls sem búsettir eru á Norðurlandi 2018 2019 2020 2021 2022
Kæfisvefnsskimun 17 18 6 8 10
PSG-rannsókn (svefnrannsókn m. heilriti) 2 4 4 6 16
Alls 19 22 10 14 26

    Þess má geta að tölur í þessu svari snúa að greiningarfasa kæfisvefns, hér er um skimun að ræða og því endurspegla þessar tölur ekki heildarumfang þeirrar þjónustu sem fylgir þeim sem greinast með og fá meðferð við kæfisvefni. Sem dæmi má nefna að árið 2022 var 661 einstaklingur á meðferðarlista svefndeildar Landspítala frá póstnúmerum 500–699 og áttu þeir 1.659 komur sem tengdust þeirri meðferð það árið. Um getur verið að ræða allt frá innstillingu nýrrar meðferðar, eftirlit (þ.m.t. rafrænt eftirlit), endurnýjun/stillingu á búnaði o.fl. sem fylgir meðferð við kæfisvefni.

     4.      Hversu hár er kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna þeirra sem fara á Landspítala en gætu annars farið á SAk?
    Í upplýsingakerfi Sjúkratrygginga Íslands er ástæða ferðar og greiðsla ferðakostnaðar skráð í textasvæði og því er ekki hægt að nálgast upplýsingar með einfaldri gagnakeyrslu. Jafnframt er óheimilt að samkeyra klínísk gögn frá Landspítala við upplýsingar um greiðslu ferðakostnaðar frá Sjúkratryggingum Íslands samkvæmt lögum um persónuvernd.
    Hins vegar er rétt að taka fram að komið hefur verið til móts við óskir Sjúkrahússins á Akureyri um viðbætur við samning um kæfisvefnsskimanir á undanförnum árum svo ólíklegt er að íbúar á upptökusvæði Sjúkrahússins á Akureyri hafi þurft að ferðast til Reykjavíkur einungis vegna kæfisvefnsskimunar.


     5.      Má gera ráð fyrir því að kostnaður einstaklings á upptökusvæði SAk sem fer í kæfisvefnsrannsókn á Landspítala sé meiri en ef viðkomandi fengi þjónustu á SAk? Ef svo er, hversu miklu munar í kostnaði?
    Kæfisvefnsskimanir þeirra einstaklinga sem eiga flóknari sjúkdómssögu eða í þörf á nákvæmari greiningu þarf að framkvæma á Landspítala. Ef hins vegar er um að ræða sambærilega kæfisvefnsrannsókn og gerð er á Sjúkrahúsinu á Akureyri má ganga út frá því að kostnaður einstaklings við það að sækja þjónustuna til Reykjavíkur verði meiri.